Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann. Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,08% í vikunni og stutt verðtryggð bréf lækkuðu um 0,06%.  Löng óverðtryggð bréf hækkuðu hins vegar um 0,27%.

Í vikunni var útboð verðtryggðra og óverðtryggðra ríkisbréfa.  Lánamál ríkisins tók útboðum fyrir um 3,6 milljarða í óverðtryggða flokknum á 5,99% kröfu og um 4,3 milljarða í verðtryggða flokknum á 3,52% kröfu, samtals um 8 milljarða.  Segja má að þetta séu nokkuð góðar viðtökur hjá markaðinum og greinilegt að nú er góður tími fyrir ríkissjóð að fjármagna sig því þau kjör sem fengust núna eru með því besta sem fengist hefur.

Það er ljóst að fátæklegt úrval fjárfestingakosta aðstoðar ríkissjóð við að fá ódýra fjármögnun.  Fjárfestar hafa fáa möguleika til að ávaxta fé sitt.  Margt leggst þar á eitt sem þó á það sameiginlegt að vera afleiðing bankahrunsins.  Innlendur hlutabréfamarkaður er lítill og því óvarlegt að vera með of mikið hlutfall eignasafns bundið í honum.

Erlend verðbréf eru ekki valkostur vegna gjaldeyrishafta og verða það vart á þessu ári.  Vaxandi óróleiki er með innlán vegna óvissu með gengistryggðu lánin og því eru fjárfestar ekki tilbúnir að vera með of mikið vægi í þeim eignaflokki.

Verkefnafjármögnun fer rólega af stað og ljóst að þangað leita litlar fjárhæðir á þessu ári. Fjárfestar eru því þvingaðir til að kaupa ríkistryggð bréf hvort sem þeir telja ávöxtun þeirra vera ásættanlega eða ekki.

 

Innlend hlutabréf

Gengi OMXI6ISK vísitölunnar hækkaði í síðustu viku um 2,35%.  Eru það Marel og Össur sem eru á bakvið þessu hækkun en bæði félög hækkuðu um rúm 3%.  

Marel verður með kynningarfund á uppgjöri sínu fyrir annan ársfjórðung fimmtudaginn 29. júlí en Össur kynnir sitt uppgjör á morgun, þriðjudaginn 27. júlí.  Miðað við hækkanir félaganna í síðustu viku á markaðurinn von á ágætum uppgjörum frá félögunum. 

Heildarveltan var 105 milljónir og skiptist á milli áðurnefndra félaga, Marels 75,7m. og Össurar fyrir 29,5m. 

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 144,00 0,00% -2,04% -10,00% 7,89% 11,20% 19,50%
FO-ATLA 142,00 5,19% -5,33% -13,94% -11,25% -11,25% -49,94%
FO-EIK 79,00 0,00% -3,66% -11,24% -3,66% -1,25% -8,14%
ICEAIR 3,50 0,00% -6,67% 12,90% -4,11% -4,11% -16,67%
MARL 93,40 3,66% 3,78% 12,12% 49,68% 49,68% 84,22%
OSSR 190,00 3,26% 5,26% -1,04% 17,28% 22,98% 65,22%
OMXI6ISK 927,58 2,35% 2,13% -3,85% 12,34% 13,82% 24,09%

(Nasdaq OMX Nordic, 26. júlí 2010)


Erlend hlutabréf

Töluverð hækkun var á helstu hlutabréfamörkuðum í síðustu viku.  S&P 500 hlutabréfavísitalan í Bandaríkjunum hækkaði um 3,57%, FTSE í Bretlandi hækkaði um 3,01%, CAC í Frakklandi um 3,05%  og Hang Seng í Kína um 2,79%.

Í vikunni voru birt nokkur góð uppgjör fyrir annan ársfjórðung í Bandaríkjunum.  Má þar nefna uppgjör bílaframleiðandans Ford, en fyrirtækið skilaði betra uppgjöri en spár sögðu til um.  Hagnaður á öðrum ársfjórðungi nam 2,3 milljörðum dala og hækkaði gengi fyrirtækisins um 12 % í vikunni.

Eftir lokun markaða í Evrópu á föstudaginn voru birtar niðurstöður úr álagsprófi á evrópska banka.  Niðurstaðan var að 5 spænskir sparisjóðir, 1 þýskur banki (Hypo Real Estate) og 1 grískur (ATEbank) féllu á prófinu eða 7 bankar af 91. 

Almennt áttu fjárfestar von á verri niðurstöðu og velta nú fyrir sér hvort prófið hafi verið of auðvelt.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1110,1 2,55% 3,51% -9,05% -2,27% -4,37% 8,76%
Þýskaland (DAX) 6166,3 2,09% 1,27% -2,91% 8,44% 3,19% 17,56%
Bretland (FTSE) 5312,6 3,01% 5,24% -7,70% 0,64% -1,89% 16,04%
Frakkland (CAC) 3607,1 3,05% 2,37% -9,86% -5,35% -8,46% 7,04%
Bandaríkin (Dow Jones) 10424,6 3,27% 2,77% -6,96% 2,26% -0,03% 14,64%
Bandaríkin (Nasdaq) 1875,4 3,99% 2,00% -8,48% 3,96% 0,81% 17,28%
Bandaríkin (S&P 500) 1102,7 3,57% 2,41% -9,03% 0,96% -1,12% 12,60%
Japan (Nikkei) 9431,0 0,24% -2,40% -14,89% -7,96% -9,89% -4,43%
Samnorræn (VINX) 90,7 3,14% 3,72% -3,95% 13,37% 13,41% 31,43%
Svíþjóð (OMXS30) 1057,8 2,23% 3,21% -1,28% 11,80% 10,77% 21,04%
Noregur (OBX) 331,4 4,48% 6,26% -7,26% 2,65% -2,14% 23,90%
Finnland (OMXH25)  2227,2 4,27% 3,99% -1,56% 11,33% 10,15% 29,43%
Danmörk (OMXC20) 411,0 0,41% 1,67% -1,04% 17,51% 21,80% 34,14%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 26. júlí 2010)


Krónan

Gengi krónunnar hreyfðist lítið í liðinni viku.  Gengisvísitalan hækkaði um 0,01% og endaði í 213,14 stigum og er þetta önnur vikan í röð sem gengi krónunnar hreyfist lítið sem ekkert.  Enn sem fyrr eru lítil viðskipti á millibankamarkaði með krónur og litlar líkur á að það breytist í bráð.

Skuldatryggingarálagið fyrir Ísland hefur verið nokkuð stöðugt frá því í lok maí og er nú 5 ára álagið í 318 punktum sem er svipað og það var um miðjan september 2008.  

Þessi stöðugleiki síðustu vikur kemur aðeins á óvart þar sem óvissa í kringum gengistryggðu lánin hefði átt að hafa neikvæð áhrif á álagið.  Ástæðan er sú að ríkið þarf trúlega að leggja fram viðbótar fé í bankakerfið og trúlega fæst minna upp í Icesaveskuldina úr þrotabúi Landsbanka Íslands.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 213,14 0,01% -1,10% -5,80% -8,74% -8,45% -7,47%
(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 26. júlí 2010)


Fyrirvari 

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.