Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann. Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,21% í vikunni en stutt verðtryggð bréf lækkuðu um 0,05%. Löng óverðtryggð bréf hækkuðu um 0,29%.

Í vikunni voru stýrivextir lækkaðir um 50 punkta sem var töluvert undir væntingum markaðsaðila. Verð skuldabréfa lækkaði hratt í kjölfarið en kom strax til baka og í lok dags var lækkunin óveruleg. Mikið af lausu fé og fáir fjárfestingakostir valda því að krafa skuldabréfa getur ekki gefið mikið eftir.

Á miðvikudaginn verður útboð ríkisvíxla með gjalddaga í september. Það verður fróðlegt að sjá hver krafan verður í útboðinu en sé tekið mið af kröfu stysta ríkisbréfaflokksins, sem er með gjalddaga í desember, þá ætti krafan í útboðinu að vera undir 5%.

Innlend hlutabréf

Ágæt velta hefur verið undanfarnar tvær vikur með bréf Marels, í síðustu viku apríl var veltan 463 milljónir og í fyrstu viku maí 315 milljónir. Heildarvelta OMXI6ISK í síðustu viku var 514 milljónir og nær eingöngu með Marel og Össur þar sem einungis 2 milljóna velta var með BankNordik og engin viðskipti voru með Atlantic Airways, Atlantic Petroleum og Icelandair.

Eftir að OMXI6ISK hafði náð að rjúfa 1000 stiga múrinn í vikunni á undan lækkaði hún í 943 stig í síðustu viku eða um 6%. Mest lækkuðu bréf Marels 7,69% en þau höfðu hækkað um rúm 12% vikuna á undan, bréf Össurar lækkuðu um 5,61%.

Icelandair birti uppgjör fyrsta ársfjórðungs 5. maí síðastliðinn. Nam tap félagsins 1,9 milljarði króna eftir skatta samanborið við 3,6 milljarða tap eftir skatta á sama tímabili í fyrra. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir skatta og fjármagnsliði nam um 180 milljónum króna.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 160 -3,03% 0,63% 11,11% 17,22% 23,55% 29,03%
FO-AIR 127 0,00% -3,79% -9,93% -9,29% -9,93% -26,80%
FO-ATLA 162 0,00% -0,62% 1,57% -10,03% 0,94% -2,47%
ICEAIR 3 0,00% -6,06% 6,90% 10,71% -15,07% -31,11%
MARL 86 -7,69% 5,11% 44,48% 30,71% 38,46% 61,19%
OSSR 185 -5,61% -3,14% 13,50% 34,55% 19,74% 86,30%
OMXI6ISK 943 -6,04% 2,09% 13,33% 16,39% 15,75% 39,61%

(Nasdaq OMX Nordic, 10. maí 2010)

Erlend hlutabréf

Miklar lækkanir og taugaveiklun einkenndu erlenda hlutabréfamarkaði í síðustu viku.  CAC hlutabréfavísitalan í Frakklandi lækkaði um rúm 10% og FTSE í London um rúm 7%.  Lán frá Evrópusambandinu og Alþjóða gjaldeyrissjóðnum sem Grikkjum hefur verið lofað að andvirði 110 milljarða evra dugði ekki til að róa fjárfesta. Óttast þeir að kreppan breiðist út til annarra landa í Evrópu.

Um helgina samþykktu fjármálaráðherrar evru-ríkjanna að setja á stofn neyðarsjóð upp á 500 milljarða evra til þess að koma í veg fyrir að skuldavandi Grikkja færðist yfir á önnur skuldsett ríki innan EB.

Nasdaq hlutabréfavísitalan í Bandaríkjunum lækkaði um tæp 8% í síðustu viku og Dow Jones um tæp 6%.  Mesta lækkunin átti sér stað á fimmtudeginum en þá lækkaði Dow Jones vísitalan á tímabili um 9% eða um 998,5 stig sem er mesta punktalækkun frá upphafi. 

Í lok dags náði vísitalan sér þó aftur á strik og endaði daginn með 3,2% lækkun.  Lækkunin átti sér stað þrátt fyrir að birtar voru jákvæðar fréttir af atvinnumálum og er verið að rannsaka hvort mistök miðlara hafi valdið þessari miklu lækkun.

Sömu sögu er að segja frá Asíu en Nikkei hlutabréfavísitalan í Japan lækkaði um rúm 6% í síðustu viku og Hang Seng í Kína um rúm 5,6%. 

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1125 -8,07% -10,12% -0,17% -4,95% -5,90% 15,31%
Þýskaland (DAX) 5715 -6,86% -4,12% 8,23% 6,75% 0,58% 21,95%
Bretland (FTSE) 5123 -7,41% -6,93% 4,66% 2,69% -0,77% 20,37%
Frakkland (CAC) 3393 -10,32% -9,06% 1,32% -2,70% -6,42% 11,20%
Bandaríkin (Dow Jones) 10380 -5,61% -5,61% 3,41% 1,30% -0,46% 21,06%
Bandaríkin (Nasdaq) 1849 -7,54% -7,27% 5,70% 4,30% -0,58% 32,66%
Bandaríkin (S&P 500) 1111 -6,34% -6,99% 4,00% 1,63% -0,38% 19,55%
Japan (Nikkei) 10365 -6,27% -6,01% 5,69% 6,69% -0,15% 11,64%
Samnorræn (VINX) 82 -10,49% -5,12% 9,51% 12,64% 9,94% 30,04%
Svíþjóð (OMXS30) 945 -10,27% -4,66% 6,29% 3,96% 4,65% 24,18%
Noregur (OBX) 318 -8,71% -4,71% 7,57% 8,34% -0,89% 31,45%
Finnland (OMXH25)  2001 -10,57% -5,22% 8,09% 12,35% 6,23% 23,74%
Danmörk (OMXC20) 371 -9,81% -0,19% 13,56% 18,27% 16,80% 33,39%

 (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 10. maí 2010)

Krónan

Krónan styrktist í liðinni viku og lækkaði gengisvísitalan um 2,4% og endaði í 220,97 stigum samkvæmt opinberu viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands. Bankinn lækkaði vexti sína um 0,5 prósentustig og Hagstofan birti bráðabirgðatölur fyrir apríl um afgang af viðskiptum við útlönd.

Svo virðist sem markaðurinn með krónuna og skuldatryggingar íslenska ríkisins hafi nú að nokkru tekið tillit til þess að greiðslufallsáhætta ríkisjóðs er hverfandi næstu 2-3 árin, en bent var á í vikufréttum fyrir tveimur vikum að undrun sætti að markaðurinn hafi ekki leiðrétt sig að breyttri stöðu.

Mikill órói hefur verið á mörkuðum vegna ótta við greiðslufall nokkurra ríkja Evrópu og veiktust flestar af helstu myntum mjög mikið, en jen styrktist á móti. Um hefðbundna flóttaleið fjárfesta er að ræða en þeir leita gjarnan í jenið við vaxandi óvissu. Króna virðist vera að mestu aftengd þróun mála í heiminum og ráða innri málefni hagkerfisins þróun gjaldmiðilsins, auk gjaldeyrishaftanna.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 220,97 -2,40% -2,33% -4,92% -7,72% -2,09% -0,21%

(Bloomberg, 10. maí 2010)

Fyrirvari 

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.