Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,14% í vikunni og stutt verðtryggð bréf hækkuðu um 0,13%. Löng óverðtryggð bréf hækkuðu um 0,44%.

Óverðtryggð bréf halda því áfram að hækka meira en verðtryggð bréf og ljóst að fjárfestar reikna með stöðugri krónu og lágri verðbólgu á næstu misserum.

S.l. miðvikudag var ríkisvíxlaútboð. Tilboðum var tekið fyrir rúma 12 milljarða og voru meðalvextir 6,25% (flatir vextir). Á sama tíma voru viðskipti með RIKB 10 1210 á undir 5% kröfu. Þetta er ríkisbréfaflokkur sem er á gjalddaga í desember en ríkisvíxlaflokkurinn er með gjalddaga í september og því er ekki óeðlilegt að bera þessa fjárfestingakosti saman. Þarna virðist vera ansi mikil skekkja sem erfitt er að skýra út.

Innlend hlutabréf

Heldur lítil velta var með bréf á OMXI6ISK í vikunni enda aðeins 4 viðskiptadagar.  Veltan nam  ríflega 80 milljónum króna sem er umtalsvert minna en síðustu vikur.  Það voru eingöngu viðskipti með bréf í Marel, Össuri og BankNordik. 

Vísitalan lækkaði um 1,62% í síðustu viku og hefur þá lækkað um 7,6% síðan hún náði sínu hæsta gildi á árinu þann 30. apríl.

Mest velta var með bréf Marels fyrir 42 milljónir, en félagið lækkaði mest allra í vísitölunni um 2,55%.  Þetta var önnur vikan í röð sem Marel og Össur lækka. Þrjú félög lækkuðu en þrjú stóðu í stað.

Atlantic Airways skilaði tapi eftir skatta upp á 5,7 milljónir danskra króna á fyrsta ársfjórðungi en á sama tíma á síðasta ári var hagnaður upp á 11,5 milljónir.  Eins og svo mörg önnur flugfélög þá hefur félagið ekki farið varhluta af öskufalli úr Eyjafjallajökli og mun það hafa áhrif í uppgjöri á næsta fjórðung.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 157 -1,88% -1,88% 7,53% 15,87% 21,24% 29,75%
FO-AIR 127 0,00% -1,55% -9,93% -9,29% -9,93% -23,95%
FO-ATLA 161,5 0,00% -2,12% 1,57% -2,71% 0,94% -2,47%
ICEAIR 3,1 0,00% -8,82% 6,90% -22,50% -15,07% -31,11%
MARL 84,2 -2,55% 0,48% 37,58% 21,10% 34,94% 41,75%
OSSR 182,5 -1,35% -3,68% 13,31% 36,06% 19,67% 74,64%
OMXI6ISK 928,04 -1,62% -3,47% 10,77% 16,00% 13,97% 32,92%

(Nasdaq OMX Nordic, 17. maí 2010)

Erlend hlutabréf

Sveiflukennd vika er að baki á erlendum hlutabréfamörkuðum.  Strax á mánudeginum hækkuðu helstu hlutabréfavísitölur um heim allan eftir að fréttir bárust af því að Evrópusambandsríkin hefðu samþykkt að stofna neyðarsjóð upp á 750 milljarða evra í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. 

Tilgangur sjóðsins er að koma í veg fyrir að fjármálavandræði Grikkja breiðist út til annarra ríkja Evrópusambandsins þar sem skuldsett ríki innan sambandsins geta nú óskað eftir lánaaðstoð til sjóðsins. 

Þrátt fyrir þessar fréttir lokuðu hlutabréfamarkaðir á neikvæðum nótum á föstudeginum og lækkaði til að mynda IBEX 35 vísitalan á Spáni um 6,6% og FTSE MIB vísitalan á Ítalíu um 5,3%. 

Svo virðist sem fjárfestar trúa ekki ennþá að grísk stjórnvöld geti staðið við lánaskuldbindingar sínar til lengri tíma og má því búast við áframhaldandi sveiflum á erlendum hlutabréfamörkuðum á komandi vikum. 

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1153 2,29% -8,06% -0,88% -3,91% -3,82% 22,04%
Þýskaland (DAX) 6057 5,98% -0,95% 8,39% 5,95% 2,76% 29,23%
Bretland (FTSE) 5263 2,77% -7,43% 0,77% -0,54% -1,77% 22,29%
Frakkland (CAC) 3560 5,22% -10,02% -3,70% -6,31% -8,87% 13,20%
Bandaríkin (Dow Jones) 10620 2,42% -3,62% 3,02% 1,75% 1,84% 28,44%
Bandaríkin (Nasdaq) 1907 3,13% -5,25% 5,31% 5,24% 2,52% 40,73%
Bandaríkin (S&P 500) 1136 2,30% -4,74% 3,29% 2,28% 1,85% 28,63%
Japan (Nikkei) 10463 0,95% -7,80% -0,69% 5,20% -2,95% 10,48%
Samnorræn (VINX) 88 6,62% -4,53% 7,03% 11,30% 10,70% 37,16%
Svíþjóð (OMXS30) 985 4,36% -4,96% 5,77% 3,48% 4,88% 30,51%
Noregur (OBX) 342 3,73% -6,23% 3,72% 1,94% -2,85% 32,94%
Finnland (OMXH25)  2125 6,26% -3,78% 5,54% 9,26% 6,25% 32,85%
Danmörk (OMXC20) 404 2,24% 1,42% 14,66% 20,92% 19,10% 39,70%

 (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 17. maí 2010)

Krónan

Krónan veiktist örlítið í liðinni viku og hækkaði gengisvísitalan um 0,26% og endaði í 221,55 stigum samkvæmt opinberu viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands.

Mikil ólga er á mörkuðum sökum skuldavanda nokkurra ríkja í Evrópu. Gríðarstór björgunarsjóður sem Evrópusambandið og AGS hafa samþykkt að koma á fót hefur ekki náð að stoppa lækkunarhrinuna.

Evran er nánast í frjálsu falli gagnvart dollar og veiktist um 3,11% í vikunni og hefur lækkað um  9,5% á einum mánuði. Að björgunarpakkinn dugi ekki til að stöðva lækkunina, þrátt fyrir að töluverð leiðrétting hafi átt sér stað, bendir til þess að fjárfestar telji að enn sé óhreint mjöl í pokahorninu. 

Krónan hefur staðið þetta nokkuð vel af sér en hefur þó gefið eftir eins og flestir gjaldmiðlar gagnvart Kanadadal og japönsku jeni. Sókn fjárfesta í þá gjaldmiðla er hefðbundin flóttaleið í óvissuástandi, en svissnenskur franki er vanalega einnig í þeim hópi en nú hafa fjárfestar forðast hann vegna tengsla við Evrópu.

  

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 221,6 0,26% -1,74% -3,56% -6,07% -4,84% -0,99%

  (Bloomberg, 17. maí 2010)

Fyrirvari 

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.