Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann. Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,74% í vikunni og stutt verðtryggð bréf hækkuðu um 0,58%. Löng óverðtryggð bréf hækkuðu um 0,41%.

Eftirspurn eftir ríkistryggðum bréfum helst stöðug og þau hækka vel í hverri viku. Enn og aftur eru það fáir valkostir fyrir fjárfesta sem ýta undir þessa eftirspurn. Á föstudaginn var útboð í nýjum ríkisvíxlaflokki með gjalddaga í október.

Mikil eftirspurn var eftir víxlunum og tók Lánasýslan tilboðum fyrir 20 milljarða. Flatir vextir bréfanna voru 5,95% sem eru töluvert háir vextir sé tekið mið af því að ávöxtunarkrafa ríkisbréfa  með lokagjalddaga í desember er um 4,2%.

Í nýjustu markaðsfréttum Lánasýslu ríkisins má sjá að erlendir fjárfestar eru stærstu eigendur ríkisvíxla og ríkisbréfa. Í lok apríl eiga þeir um 70% af útgefnum ríkisvíxlum og rúmlega 70% af styttri ríkisbréfunum. Þeir eiga hins vegar aðeins um 10-20% af lengstu ríkisbréfunum. Lífeyrissjóðirnir eiga mest af lengstu flokkunum tveimur, eða um 40%.

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan stóð nánast í stað á milli vikna.  Veltan var um 270 milljónir króna, mest með Marel fyrir um 137 milljónir.  Marel hækkaði mest í vikunni um 5,9%.  Tvö félög stóðu í stað en þrjú lækkuðu.

OMX Iceland 6 vísitalan er endurskoðuð á 6 mánaða fresti og ein breyting verður á vísitölunni þann 1. júlí n.k. þegar Eik Banki kemur inn fyrir Atlantic Airways.  Vísitalan er samsett af þeim 6 félögum sem mest viðskipti eru með á Nasdaq Omx Iceland.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 150,00
-1,32% -4,46% -5,06% 13,64% 15,83% 21,95%
FO-AIR 128,00 0,00% 0,79% -3,76% -12,93% -9,22% -21,95%
FO-ATLA 154,00 -3,75% -4,64% -6,67% -7,23% -3,75% -53,31%
ICEAIR 3,10 0,00% 0,00% 3,33% -15,07% -15,07% -31,11%
MARL 84,50 5,89% -1,63% 19,18% 33,07% 35,42% 59,43%
OSSR 183,50 -2,39% -1,61% 2,80% 32,01% 18,77% 65,32%
OMXI6ISK 903,39 -0,13% -3,63% -0,58% 13,62% 10,85% 22,84%

(Nasdaq OMX Nordic, 14. júní 2010)

Erlend hlutabréf

Góður gangur var á hlutabréfum almennt um allan heim í síðustu viku og hækkaði heimsvísitalan  um 1,97%. Sum svæði hækkuðu meira en önnur og t.d. hækkaði samnorræna vísitalan um 2,82%.

Forsætisráðherra Japans, Naoto Kan, segir að hætta sé á hruni þar í landi vegna gríðarlegrar skuldsetningar hins opinbera. Skuldir Japans eru nú um 200% af landsframleiðslu.

Kan líkti ástandi Japans við Grikkland og ef ríkin héldu áframhaldandi skuldasöfnun gæti það leitt til hruns og minnkandi trausts á ríkisbréfum landanna. Þessi ummæli forsætisráðherrans höfðu ekki áhrif á gengi jensins.

Greiningaraðilar BCA eru bjartsýnir á hlutabréfin.  Þeir telja að hlutabréf séu ennþá ódýr sé horft til síðustu 30 ára. Þeir benda einnig á að vextir eru lágir sem koma fyrirtækjunum til góða og ýta jafnframt á fjárfesta að skoða aðra valkosti en innlán.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1075 1,97% -3,84% -8,99% -7,23% -7,51% 8,68%
Þýskaland (DAX) 6048 1,84% 1,16% 3,06% 5,59% 2,84% 20,86%
Bretland (FTSE) 5164 0,75% -1,14% -7,52% -2,12% -3,88% 17,13%
Frakkland (CAC) 3556 2,99% 1,36% -8,11% -5,78% -8,32% 8,50%
Bandaríkin (Dow Jones) 10211 2,90% -3,85% -3,89% -2,76% -2,08% 16,04%
Bandaríkin (Nasdaq) 1847 0,83% -3,14% -4,02% 2,10% -0,71% 23,97%
Bandaríkin (S&P 500) 1092 2,57% -3,88% -5,08% -2,02% -2,11% 15,37%
Japan (Nikkei) 9705 -1,98% -5,57% -8,11% -2,23% -6,32% -2,53%
Samnorræn (VINX) 88 2,21% 2,01% 0,60% 14,24% 12,09% 33,36%
Svíþjóð (OMXS30) 1016 2,82% 4,31% 0,90% 7,43% 7,95% 28,47%
Noregur (OBX) 323 1,91% -0,01% -2,22% -1,29% -2,86% 19,11%
Finnland (OMXH25)  2173 3,03% 3,49% -1,74% 12,05% 8,22% 30,35%
Danmörk (OMXC20) 402 1,27% 1,27% 9,84% 23,46% 21,47% 34,69%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 14. júní 2010)

Krónan

Krónan gaf lítillega eftir í liðinni viku og hækkaði gengisvísitalan um 0,32% og endaði í 213,95 stigum samkvæmt opinberu viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands. Í vikunni var tilkynnt um tvíhliða gjaldmiðlaskiptasamning upp á 66 ma. króna á milli Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Kína. 

Samningurinn mun annars vegar auðvelda viðskipti milli landanna, því ekki mun þurfa að nota aðra gjaldmiðla í þeim og hins vegar getur Seðlabanki Íslands keypt júan fyrir krónur, sem aftur ætti að vera hægt að skipta í evrur eða dollara.

Samningurinn eykur því aðgengi seðlabankans að erlendu fé. Áhrif þessa samnings eru jákvæð fyrir íslenskt hagkerfi en munu ekki hafa teljandi áhrif á krónuna.

Því skal þó haldið til haga að þetta er annað skrefið í rétta átt hjá Seðlabanka Íslands á skömmum tíma, en nýverið eignaðist bankinn íslensk ríkistryggð skuldabréf sem voru í höndum erlends aðila og í raun ígildi „krónubréfa“. Á heildina litið er Seðlabanki Íslands á réttri leið og gaman verður að sjá næstu vikur hvort seðlabankinn hafi fleiri tromp á hendi.


Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 213,9 0,32% -2,32% -4,61% -8,97% -8,10% -5,76%
(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 14. júní 2010)


Fyrirvari 

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.