Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann. Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend Skuldabréf

Verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,5% í vikunni og óverðtryggð skuldabréf um 1,1%. Öll ríkistryggð skuldabréf hækkuðu í verði. Dómur hæstaréttar um  lögmæti gengistryggðra lána jók á óvissu um stöðu bankanna og virðist sem fjárfestar séu að færa sig úr innlánum yfir í ríkistryggð skuldabréf.

Ávöxtunarkrafa allra íbúðabréfa er nú komin undir 3,5%, sem er oft talin vera neðstu mörk hennar.  Í lok vikunnar var ávöxtunarkrafan um 3,3%  á öllum flokkum, en rétt undir 3% á stystu bréfunum. Erfitt er að spá í framhaldið, markaðurinn einkennist af óvissu um stöðu bankanna og aukinni ásókn í ríkistryggðar eignir.

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan lækkaði um tæpt prósent í síðustu viku og nam veltan rétt um 171 milljón sem er um helmingi minni velta en hefur verið að meðaltali á viku frá áramótum.

Mesta veltan var með bréf Marels fyrir 112 milljónir og Össurar fyrir 48 milljónir.

Af fréttum bar hæst fjárfesting Framtakssjóðs Íslands og Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í Icelandair Group.  Framtakssjóðurinn gerði bindandi samkomulag við félagið um kaup á 1,2 milljörðum nýrra hluta á genginu 2,5 og er fjárfestingin því um 3 milljarðar króna.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna gerði sambærilegt samkomulag og framtakssjóðurinn um fjárfestingu fyrir 1 milljarð og eignast þar með 12% hlut í félaginu. Þar með er Icelandair Group búið að safna 4 milljörðum af þeim 5 sem ætlunin var að safna með útgáfu nýrra hluta. Búast má við að almenningi verði gefinn kostur á að taka þátt í hlutafjárútboði félagsins síðar á árinu.

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 147,00 -2,00% -3,29% -7,55% 14,84% 13,51% 20,00%
FO-AIR 122,00 -4,69% -3,94% -7,58% -13,48% -13,48% -25,61%
FO-ATLA 154,00 0,00% -4,64% -5,52% 0,98% -3,75% -51,87%
ICEAIR 3,10 0,00% 0,00% 6,90% -15,07% -15,07% -34,74%
MARL 85,50 1,18% 11,04% 9,90% 37,90% 37,02% 60,11%
OSSR 180,00 -1,91% 2,27% -1,64% 20,81% 16,50% 62,90%
OMXI6ISK 895,76 -0,84% 1,73% -4,42% 11,95% 9,91% 20,97%

 (Nasdaq OMX Nordic, 14. júní 2010)


Erlend hlutabréf

Töluverð hækkun var á helstu hlutabréfamörkuðum í síðustu viku.  Í Bandaríkjunum hækkaði S&P500 um 2,4%, en Nasdaq og Nikkei í Japan hækkuðu bæði um 3,0%. Heimsvísitala MSCI hækkaði um 3,2%.

Dow Jones hlutabréfavísitalan hefur nú hækkað um 5,2% síðustu tvær vikurnar eftir að hafa lækkað um rúm 10% frá því í byrjun maí til 7. júní.  Velta fjárfestar nú fyrir sér hvort hlutabréfaverð hafi náð lágmarki í bili og hvort von sé á frekari hækkunum.

Tæknigreining bendir til þess að vísitalan muni halda áfram að hækka og að lækkunin hafi verið leiðrétting sökum væntinga um minni hagvöxt á heimsvísu. 

Margir fjárfestar eiga þó von á sveiflum á hlutabréfaverði eitthvað áfram og bíða nú eftir afkomutölum hlutafélaga fyrir fyrstu 6 mánuði ársins 2010  

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1112,8 3,24% 3,89% -6,33% -3,50% -4,55% 15,60%
Þýskaland (DAX) 6217,0 2,80% 7,98% 5,21% 6,13% 5,66% 30,06%
Bretland (FTSE) 5250,8 1,71% 4,79% -6,10% 0,22% -1,98% 22,08%
Frakkland (CAC) 3687,2 3,94% 9,14% -4,61% -3,30% -4,87% 16,24%
Bandaríkin (Dow Jones) 10450,6 2,36% 2,52% -2,71% 0,35% 0,22% 22,38%
Bandaríkin (Nasdaq) 2309,8 2,95% 3,62% -2,72% 3,22% 1,79% 26,39%
Bandaríkin (S&P 500) 1117,5 2,39% 2,74% -3,65% 0,31% 0,22% 21,31%
Japan (Nikkei) 9995,0 2,99% 4,63% -5,42% 0,54% -2,92% 4,62%
Samnorræn (VINX) 90,8 2,82% 11,71% 2,64% 17,36% 15,05% 43,74%
Svíþjóð (OMXS30) 1054,6 3,77% 11,45% 4,19% 12,09% 11,69% 36,62%
Noregur (OBX) 330,1 2,09% 7,32% 0,59% -0,39% -0,71% 28,88%
Finnland (OMXH25)  2224,1 2,34% 10,11% 1,33% 13,89% 10,37% 41,60%
Danmörk (OMXC20) 417,2 3,73% 12,05% 10,93% 27,09% 25,10% 43,67%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 21. júní 2010)


Krónan

Krónan styrktist í liðinni viku og lækkaði gengisvísitalan um 0,4% og endaði í 213,1 stigi samkvæmt opinberu viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands. Í vikunni (16. júní)  tilkynnti Seðlabankinn að Ríkissjóður Íslands væri reiðubúinn að kaupa EUR skuldabréf útgefnum af ríkissjóði fyrir allt að 300 milljónir evra.  Bréfin eru á gjalddaga árin 2011 og 2012.

Krafa á flokknum sem er á gjalddaga 2011 lækkaði við tilkynninguna og stendur í rétt tæpum 7% og hefur lækkað úr rúmum 9% síðastliðna 3 mánuði. Bréfið ber 3,75% vexti og því mun ríkissjóður að öllum líkindum gera góð kaup í formi affalla af bréfunum.

Einnig mun hann fá 3,75% vexti af bréfinu sem er mun hærra en Seðlabankinn fær á innistæður í evrum. Um mjög jákvætt skref er að ræða og mun það leiða til aukins trausts á íslenskt efnahagslíf.  

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 213,06 -0,41% -1,14% -5,29% -9,42% -8,48% -7,13%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 21. júní 2010)


Fyrirvari 

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.