Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,31% í vikunni og stutt verðtryggð bréf hækkuðu um 0,45%. Löng óverðtryggð bréf hækkuðu um 1,16%.

Það var því töluverð hækkun á verði ríkistryggðra bréfa í síðustu viku. Þessi mikli kaupáhugi kom í kjölfarið á gjalddaga á stuttum ríkisbréfaflokki en á gjalddaga voru tæpir 70 milljarðar. Það sem vakti athygli var að kaupáhuginn var jafnt á stuttum óverðtryggðum bréfum og löngum verðtryggðum bréfum.

Inn í þetta hefur trúlega spilað að fjárfestar reikna með að verðbólga verði heldur meiri í næstu mælingu (24. mars n.k.) en upphaflega var gert ráð fyrir.

Stýrivextir voru lækkaðir um 50 punkta sem var í efri mörkum þess sem flestir voru að spá en almennt voru greiningadeildir að reikna með 25-50 punkta lækkun.

Innlend hlutabréf

Aðra vikuna í röð hækkaði OMXI6ISK um meira en 3%, heildarvelta með bréf félaga í vísitölunni var í kringum 508 milljónir króna og er þetta talsvert meiri velta heldur en hefur verið síðustu vikur.

Mest var velta með bréf Marels fyrir 390 milljónir króna í 52 viðskiptum og hækkaði gengi félagsins um 9,7% í síðustu viku og nemur 12 mánaða hækkun nú 59%.  Mest af hækkun þessa árs hefur komið á síðustu fjórum vikum. Gengi félagsins stóð í 63 þann 23. febrúar en lokaði s.l. föstudag í 77,8.

Sem fyrr eru það Marel og Össur sem flest viðskipti eru með á markaðinum.  Í liðinni viku voru 83 af 125 viðskiptum á OMXI6ISK í þessum tveim félögum og næstum 96% af veltunni.  Þetta eru einnig þau félög í OMXI6ISK með hæsta markaðsvirðið, Össur ríflega 83 ma.kr. og Marel ríflega 56,5 ma.kr.

Mest hækkuðu bréf Bakkavarar í síðustu viku um rúm 11% en talsverðar sveiflur hafa verið á gengi félagsins eftir að tilkynnt var um að félagið verði líklega afskráð af markaði á næstunni. 


Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Bakkavör 1,35 11,11% -25,00% -23,08% -6,25% 4,90% -25,00%
FO-AIR 133 -0,75% -6,38% -6,38% -10,20% -6,38% -22,81%
FO-ATLA 163 -1,21% 6,54% 6,89% -30,40% 1,88% -4,97%
FO-BANK 159 0,63% 9,66% 24,22% 13,57% 22,78% 40,71%
Marel 77,8 9,73% 24,48% 25,89% 32,22% 24,68% 59,10%
Össur 183 2,52% 14,02% 21,19% 49,39% 18,45% 92,63%
OMXI6ISK 937,22 3,14% 8,25% 14,13% 14,01% 11,50% 59,12%

(Nasdaq OMX Nordic, 22. mars 2010)

Erlend hlutabréf

Í síðustu viku hækkuðu hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum þriðju vikuna í röð.  Hins vegar lækkuðu markaðir á föstudaginn eftir að óvæntar fréttir bárust frá Indlandi þess efnis að vextir yrðu hækkaðir þar í landi vegna hækkandi verðbólgu.  Hafa menn nú áhyggjur af því að aðrir seðlabankar í Asíu munu gera slíkt hið sama til að kæla niður hagkerfi sín. 

General Electric hækkaði mest fyrirtækja í Dow Jones vísitölunni í síðustu viku um 6%.  Ástæðan fyrir hækkuninni er sú að stjórnendur reikna nú með að fyrirtækið hækki arðgreiðslur sínar árið 2011.  Fjárfestar gera því ráð fyrir betri afkomu hjá félaginu á næsta ári og jafnvel að þetta sé vísbending um batnandi stöðu bandaríska hagkerfisins.

Hlutabréfamarkaðir í Evrópu hækkuðu almennt í síðustu viku en líkt og í Bandaríkjunum þá lokuðu þeir flestir á neikvæðu nótunum á föstudaginn.  Áhyggjur af fjárhagsstöðu Grikklands eru fjárfestum sem fyrr ofarlega í huga.  Telja menn nú meiri líkur en áður á að Grikkir þurfi aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.  

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1197 0,31% 4,47% 2,71% 4,15% 1,91% 50,74%
Þýskaland (DAX) 5982 0,63% 4,55% 0,02% 4,16% -0,17% 46,16%
Bretland (FTSE) 5650 0,56% 4,93% 5,39% 9,20% 3,75% 46,14%
Frakkland (CAC) 3925 -0,05% 3,73% -0,04% 1,91% -1,01% 39,61%
Bandaríkin (Dow Jones) 10742 1,11% 3,45% 2,65% 9,28% 3,01% 47,59%
Bandaríkin (Nasdaq) 1932 0,42% 6,32% 5,05% 11,44% 3,88% 62,77%
Bandaríkin (S&P 500) 1160 0,87% 4,68% 3,75% 8,23% 4,02% 50,92%
Japan (Nikkei) 10744 0,68% 4,08% 4,30% 4,38% 2,64% 36,23%
Samnorræn (VINX) 90 0,65% 6,10% 12,73% 13,85% 11,29% 70,37%
Svíþjóð (OMXS30) 1020 0,21% 6,52% 5,65% 10,20% 6,78% 53,61%
Noregur (OBX) 335 -0,65% 1,79% -1,73% 11,87% -2,07% 65,44%
Finnland (OMXH25)  2214 -1,05% 6,21% 10,38% 10,93% 8,50% 67,06%
Danmörk (OMXC20) 380 1,97% 4,52% 12,88% 11,02% 12,06% 66,25%

(Bloomberg, 22. mars 2010)

Krónan

Krónan styrktist í liðinni viku og lækkaði gengisvísitalan um 0,23% skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði í 227,03 stigum. Krónan heldur því áfram að styrkjast þótt hægt fari.

Það gerðist tvennt í vikunni sem hefði getað lækkað gengi krónunnar. Annars vegar voru stýrivextir lækkaðir um 50 punkta. Hins vegar var lokagjalddagi ríkisbréfaflokks sem var að mestu í eigu erlendra fjárfesta.

Eins og þekkt er þá geta erlendir aðilar valið á milli þess taka vaxtatekjur úr landi eða endurfjárfesta fyrir þær í krónum. Vaxtatekjur vegna þessa flokks voru nálægt 6 milljörðum og þar af áttu erlendir aðilar um 5 milljarða.

Þrátt fyrir þetta þá hreyfðist krónan nánast ekkert í vikunni. Þetta bendir annars vegar til þess að gjaldeyrishöftin haldi mjög vel og hins vegar til þess að erlendum fjárfestum líði betur með eignir í krónum en áður var talið.

Þeir virðast ætla að nýta háa íslenska vexti enn um sinn og treysta á að gjaldeyrishöftin verði rýmkuð innan ekki svo langs tíma þ.a. þeir geti farið úr krónunni þegar vaxtastigið verður ekki lengur áhættunnar virði.


Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 227,55 -0,23% -1,16% -3,79% -2,55% -2,26% 13,89%
(Bloomberg, 22. mars 2010)

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.