Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 1,33% í vikunni og stutt verðtryggð bréf lækkuðu um 0,30%. Löng óverðtryggð bréf hækkuðu um 0,24%.

Í vikunni voru birtar verðbólgutölur og mældist verðlagshækkunin 0,55% sem er að mestu komin til vegna útsöluloka og hækkunar á eldsneytisverði. Á móti kom lækkun á fasteignaliðnum. Þetta verðbólguskrið er í neðri mörkum þess sem almennt var reiknað með og því ekki óeðlilegt að verðtryggð bréf væru seld.

Flestir reikna með að frekar lítill verðbólgumatur sé eftir og því verði ekki miklar verðlagshækkanir á næstu mánuðum. Helstu verðbólguvaldar síðustu ár eru annars vegar fasteignaliðurinn og hins vegar þróun á gengi krónunnar.

Það hefur hins vegar orðið viðsnúningur á þessum liðum. Krónan hefur styrkst síðustu mánuði og fasteignaverð er á niðurleið. Til viðbótar hafa vextir farið lækkandi og skattaáhrifin eru að baki. Þetta hefur orðið til þess að vaxtamunur verðtryggðra og óverðtryggðra bréfa (verðbólguálagið) hefur farið lækkandi.

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan hækkaði um 2,29% í síðustu viku og var heildarveltan 424 milljónir. Í vikunni var mest velta með Færeyjabanka fyrir um 340 milljónir.

Frekar lítil velta var með íslensku félögin Marel og Össur sem öllu jöfnu hafa haldið veltunni uppi. Mesta hækkunin var á bréfum Össurar 4,1% og fór gengið yfir 190 og hefur aldrei verið hærra. Hækkun síðastliðna 12 mánuði nemur 115%.

Hilda hf (Saga Capital) hefur á síðustu vikum minnkað hlut sinn í Færeyjabanka en frá áramótum hefur hlutur félagsins farið úr 7,72% og niður í 4,55%. Andvirði seldra bréfa nemur um 1,3 milljörðum.

Hluthafafundur var haldinn í Bakkavör þann 26. mars þar sem samþykkt var að sækja um afskráningu bréfa félagsins úr Kauphöll, að afskráningu lokinni verður félaginu breytt í einkahlutafélag. 

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Bakkavör 1,5 0,00% -11,76% -23,08% -14,29% -25,00% 7,91%
FO-AIR 132 0,00% -6,38% -6,38% -10,20% -6,38% -22,81%
FO-ATLA 163 -2,15% 4,25% -0,31% -31,90% -0,31% -7,01%
FO-BANK 160 0,63% 6,67% 23,55% 12,68% 23,55% 33,33%
Marel 79,5 2,19% 13,57% 28,02% 26,19% 27,40% 75,30%
Össur 190,5 4,10% 13,06% 27,42% 54,88% 23,30% 115,25%
OMXI6ISK 958,64 2,29% 9,04% 19,05% 18,54% 17,63% 51,35%

(Nasdaq OMX Nordic, 29. mars 2010)

Erlend hlutabréf

Hlutabréfaverð hélt áfram að hækka þessa vikuna og hafa allar helstu hlutabréfavísitölur heims hækkað á þessu ári. Hækkanir á hlutabréfaverði síðustu 12 mánuði hafa verið miklar og hafa helstu vísitölur heims hækkað um og yfir 50%. Af þróuðum mörkuðum hafa Norðurlöndin skilað hæstri ávöxtun. 

Kínverska félagið Zhejiang Geely Holding hefur gengið frá kaupum á sænska fólksbílaframleiðandanum Volvo. Kínverjar munu eflaust sækja fram af auknum krafti á bílamarkaðinum og eru þessi kaup trúlega liður í því afla sér aukinnar þekkingar á því sviði.

Þýskaland hefur fallist á að veita Grikklandi aðstoð og er talið að margra milljarða evra skuldabréfaútgáfa Grikklands í þessari viku sé liður í þeirri áætlun. Mjög mikilvægt er fyrir hlutabréfamarkaði í Evrópu að óvissunni sé eytt en óvissan hefur þau áhrif að fjármunir leita úr evrunni og einnig evrópska hlutabréfamarkaðinum.

Hins vegar munu vandræði einstakra ríkja Evrópusambandsins á endanum leiða til minnkunar á sameiginlegum innri markaði sem mun aftur hafa áhrif á neyslu og fjárfestingu. 

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1192 0,26% 5,30% 1,31% 6,03% 2,13% 44,71%
Þýskaland (DAX) 6120 2,30% 10,25% 2,67% 8,03% 3,61% 46,83%
Bretland (FTSE) 5703 0,98% 7,04% 5,40% 11,08% 5,89% 47,00%
Frakkland (CAC) 3989 1,62% 8,33% 1,46% 5,34% 2,07% 41,44%
Bandaríkin (Dow Jones) 10850 1,01% 5,09% 2,89% 11,37% 4,05% 39,53%
Bandaríkin (Nasdaq) 1953 1,05% 7,37% 4,31% 13,68% 4,96% 56,03%
Bandaríkin (S&P 500) 1167 0,59% 5,62% 3,59% 9,99% 4,62% 42,97%
Japan (Nikkei) 10996 1,59% 8,50% 3,28% 8,77% 4,17% 27,35%
Samnorræn (VINX) 91 1,60% 8,86% 13,22% 19,22% 13,48% 70,38%
Svíþjóð (OMXS30) 1027 1,08% 9,06% 6,98% 14,45% 8,57% 57,61%
Noregur (OBX) 339 1,26% 7,23% -0,69% 16,57% 0,35% 62,96%
Finnland (OMXH25)  2275 4,05% 10,23% 12,63% 17,57% 12,36% 74,10%
Danmörk (OMXC20) 385 1,99% 8,56% 14,53% 15,07% 14,39% 65,66%

(Bloomberg, 29. mars 2010)

Krónan

Krónan veiktist í liðinni viku og lækkaði gengisvísitalan um 0,70% skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði í 228,62 stigum. Þrátt fyrir veikingu þessa vikuna er krónan í styrkingarfasa.

Seðlabanki Íslands hefur nýtt sér aðstæður á markaði til að kaupa skuldabréf í evrum, gefin út af ríkissjóði Íslands á mun hærri ávöxtunarkröfu en nafnvextir bréfanna segja til um.

Ávöxtunarkrafan á bréfinu sem eru á gjalddaga 1. desember 2011 hefur undanfarið verið rúm 9% en bréfið ber 3,75% vexti. Þetta hefur þau áhrif að seðlabankinn er að greiða minna fyrir bréfin þegar þau eru keypt en greiða þarf fyrir þau á gjalddaga.

Einnig fær seðlabankinn vaxtatekjur af þeim bréfum sem hann kaupir, en þær eru mun hærri en bankanum stendur til boða á innstæðum í evrum.

Seðlabankinn íhugar frekari kaup og er það jákvætt, horft til áðurnefndra þátta. Á hinn bóginn ganga þessar fjárfestingar á gjaldeyrisforðann og því eru takmörk fyrir því hversu stórtækur seðlabankinn getur verið, sérstaklega ef ríkissjóður fær ekki frekari fjármögnun.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 228,62 0,70% -0,81% -2,35% -2,39% -2,48% 8,57%

(Bloomberg, 29. mars 2010)

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.