Markaðsfréttir 27.-31. júlí 2009

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.  

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 


Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK lækkaði um 0,16% í vikunni. Marel var eina félagið í OMXI6ISK sem hækkaði og nam hækkun þess 0,99%.

Mikil velta var á hlutabréfamarkaði þessa vikuna eða um 4,3 milljarðar. Ástæðan fyrir þessari miklu veltu var yfirtökutilboð Lur Berri Iceland ehf. til hluthafa Alfesca hf. á genginu 4,5 sem var á gjalddaga 31. júlí en var svo framlengt um 18 daga.

Mest lækkuðu bréf Icelandair Group hf. (2,22%) og Össur lækkaði um 0,88%, Bakkavör um 0,68% og Føroya Banki stóð í stað.

 

 

Erlend hlutabréf

Þriðju vikuna í röð hækkuðu helstu vísitölur í heiminum. Mikil uppgangur hefur verið í hlutabréfum síðustu vikur. Fjárfestar leita almennt meira inn á hlutabréfamarkaðinn þar sem vextir eru mjög lágir og aukin bjartsýni á að það versta sé gengið yfir.

Stærri landsvísitölur hækkuðu allar í vikunni og nam hækkun DAX í Þýskalandi 1,53%, FTSE í Bretlandi um 0,99%, Dow Jones um 0,69%, Nasdaq um 0,54%, Nikkei í Japan um 0,76, Hang Seng í Kína um 1,59% og VINX samnorræna vísitalan hækkaði um 5,38%.

 

 

Skuldabréf

Verðtryggð ríkisskuldabréf lækkuðu um rúm 0,41% í vikunni og óverðtryggðu bréfin lækkuðu um  0,93%. Það voru því frekar litlar verðbreytingar í vikunni og má skrifa það að einhverju leyti  á  að margir markaðsaðilar eru í sumarfríi í lok júlí.

Það er áfram mikil óvissa um framhaldið. Vaxtalækkunarferlið er í frysti á meðan krónan er veik.  Krónan verður veik á meðan óvissa ríkir um hvernig staðið verður að afnámi gjaldeyrishafta og á meðan ekki er fundin lausn á stöðu erlendra aðila sem eiga íslenskar krónur.

Icesave spilar líka inn í en það er ljóst að lánafyrirgreiðslur til Íslands verða takmarkaðar á meðan að það mál er óleyst. Það jákvæða er að CDS álagið á Ísland hefur farið hratt lækkandi og er nú farið að nálgast 500 punkta.  Það þarf þó að fara mun neðar eða niður fyrir 200 punkta áður en íslensk fyrirtæki geta reiknað með erlendri lánafyrirgreiðslu.

 

 

Krónan

Samkvæmt opinberu viðmiðunargengi Seðlabankans var gengisvísitala krónunnar 234,75 föstudaginn 31. júlí s.l.  sem samvarar 1,4% veikingu í vikunni.

Markaðsaðilar bíða spenntir eftir áætlun stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta sem kynna á fljótlega.  Ljóst er að höftin verða afnumin í áföngum en líklega eru nokkur misseri í að frjálst flæði fjármuna verði inn og út úr íslenskum fjármálamarkaði.

Eftir mikið gengishrun er ljóst að gengi íslensku krónunnar er mjög veikt í sögulegu samhengi.  Samt er líklegt að gengi hennar væri enn lægra væru viðskipti með hana alveg frjáls.

Gengishrunið á Íslandi á sér nokkrar hliðstæður.  Þær sem helst koma upp í hugann eru hrunið í Argentínu og Indonesíu.  Þegar efnahagskreppan gekk yfir Argentínu 2001-2002 hrundi gengi argentínska pesósans um 75%. 

Svipað hrun var í Indonesíu í Asíukreppunni en þar hrundi gjaldmiðillinn um 80% árið 1998.  Til samanburðar er hrun íslensku krónunnar „einungis“  40-50% 2008-2009 þannig að lækkun íslensku krónunnar hefur verið mun minni en lækkun gjaldmiðla þessara landa.