Markaðsfréttir 3.-7. ágúst 2009

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.  

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 


Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK lækkaði um 0,58% í vikunni. Marel var eina félagið sem hækkaði og er það aðra vikuna í röð, nam hækkunin 2,56%.

Hluthafafundur var haldinn í Icelandair þann 6. ágúst og voru tvö mál á dagskrá fundarins, annars vegar heimild til stjórnar að hækka hlutafé félagsins með útgáfu nýrra hluta og hins vegar kosning stjórnar. Marel birti 6 mánaða uppgjör þann 7. ágúst sem fór vel í markaðinn og hafði félagið hækkað um 3,99% í lok dags.

Mest lækkuðu bréf Færeyjabanka í vikunni eða um 1,66%, Bakkavör lækkaði um 0,68% og Össur lækkaði um 0,44%.

 

Erlend hlutabréf

Hækkun hefur verið á erlendum hlutabréfamörkuðum undanfarnar vikur og meiri bjartsýni ríkir hjá aðilum markaðarins. Í Bandaríkjunum hækkuðu hlutabréf eftir að atvinnuleysistölur voru betri en spár.

Þessum fréttum var einnig vel tekið í Þýskalandi þar sem stóru félögin Deutsche Bank, Commerzbank, Volkswagen og Deutsche Telekom hækkuðu öll.

Helstu hlutabréfavísitölur hækkuðu flestar fjórðu vikuna í röð og nam hækkun samnorrænu vísitölunnar VINX 0,34%, DAX í Þýskalandi  2,40%, FTSE í Bretlandi 2,67%, Dow Jones 2,14% , Nasdaq 0,10%, Nikkei í Japan 0,55% en Hang Seng í Kína lækkaði um 1,01%.

 

Skuldabréf

Verðtryggð ríkisskuldabréf hækkuðu um rúm  0,5% í vikunni og óverðtryggðu bréfin hækkuðu um  2,5%.  Lítil verðbólga í ágúst hefur einhver áhrif en verðbólguálagið var orðið frekar hátt og trúlegt að fjárfestar telji að verðbólguhorfurnar séu eitthvað að skána.

Það er áfram góður afgangur af vöruviðskiptum og helstu útflutningsvörurnar, ál og fiskur, hafa hækkað í verði undanfarið. Eftir sem áður er mikil óvissa með framhaldið þar sem stýrivaxtaákvarðanir SÍ spila stærstu rulluna.

 

Krónan

Krónan styrktist um 0,57% samkvæmt opinberu viðmiðunargengi Seðlabankans og endaði gengisvísitala krónunnar í 233,42 stigum föstudaginn 7. ágúst s.l. Krónan er komin í skammtíma jafnvægi í kringum 230-240 stig, sem gefur mjög lágt raungengi í sögulegu samhengi.

Ekki er enn ljóst hvort samkeppnisstaða Íslands leiðréttist að miklu leyti með styrkingu krónunnar eða í gegnum hærri verðbólgu hér en í viðskiptalöndunum á næstu árum.

Líklegast er að hvoru tveggja muni eiga sér stað og líklegt er að stærri hluti leiðréttingarinnar muni fara fram í gegnum verðlag og launakostnað en hefur verið í umræðunni undanfarin misseri.   

Í vikunni gaf Seðlabankinn út áætlun um afnám gjaldeyrishafta og hefur ríkisstjórnin samþykkt þá áætlun. Afnámið mun taka 2-3 ár og verða framkvæmt í varfærnum skrefum.

Fyrst verða hömlur á öllu innstreymi erlends gjaldeyris létt á tiltölulega skömmum tíma og í öðrum áfanga verður byrjað að opna fyrir útflæði, þó á ákveðnum flokkum til að byrja með.

Þessi áætlun verður að teljast jákvætt skref í átt að eðlilegum viðskiptaháttum en verður ekki að veruleika nema hægt sé að tryggja stöðugleika gengis krónunnar.